Knattspyrnuvellir á Árskógsströnd
Framan af var knattspyrna ekki stunduð innan vébanda Reynis. Fyrsta vísinn af knattspyrnuiðkun á Ströndinni má rekja til áranna 1915 - 1920. Fljótlega fóru áhugamenn um knattspyrnuiðkun að huga að vallarstæði til frambúðar, en höfðu til að byrja með notast við túnbletti hér og þar, sem ekki var vinsælt af bændum sem vildu hafa af þeim grasnytjar. Árið 1923 voru ungmennafélagar hvatamenn að því að stofna sérstakt fótboltafélag og var það stofnað í húsi Reynis 22. janúar það ár og hét Þróttur. Fyrstu stjórn þess skipuðu Anton Jóhannsson formaður, Sigurður Traustason ritari og Marinó Þorsteinsson féhirðir, allir félagsmenn í ungmennafélaginu Reyni einnig. Tuttugu og átta manns skrifuðu undir lög félagsins á stofnfundi.
Fljótlega var hafist handa við gerð vallar til æfinga og keppni. Fenginn var blettur í landi Birnuness og hafnar framkvæmdir. Þann 10. apríl 1927 var skrifað undir samning við Níels Jónsson bónda á Birnunesi, af stjórn Þróttar og Reynis, um ,,jarðarblett að stærð 110 m langan og 55 m breiðan og skulu áðurnefnd félög hafa blett þann til umráða og afnota að öllu leyti” eins og segir í fundargerð Þróttar.
Um 1950 virðist sem ungir menn á Árskógsströnd hafi verið farnir að spila undir nafni Reynis, en síðast er getið um störf Þóttar í gjörðabók 1947.
Fyrsti knattspyrnuvöllur Reynis var norðan við félagsheimilið Árskóg, á velli sem Árskógarskóli nýtir nú fyrir knattspyrnu og leiki nemenda. Náði þá völlurinn frá þeim stað er uppfyllingin byrjar að norðan og alveg suður að félagsheimilinu og má líklegt telja að uppgröfturinn sem kom þegar grunnur félagsheimilisins var tekinn hafi verið notaður til að byggja upp þennan völl. Þegar á leið jókst þörf fyrir bílastæði í kringum Árskóg og varð þess vegna að taka hluta af vellinum undir annað en knattspyrnu. Þegar þrengja fór að knattspyrnumönnum ákváðu þeir að flytja aðstöðu sína i mýrina niður með gamla Hauganesveginum. Völlurinn var nokkuð blautur fyrst á vorin og oft nokkuð þungur við fót en þarna var sléttasta svæðið sem til boða stóð svo menn þáðu það. Reynismenn stungu í burtu nokkrar þúfur og svo sá Jens í Stærra-Árskógi um að valta völlinn til að halda honum sléttum. Á þessum velli var spilað þó nokkuð lengi, eða allt fram að því að ákveðið var að ráðast í uppbyggingu nýs vallar á þeim stað sem íþróttavöllur félagsins er í dag. Ræktunar-sambands jarðýtan var fengin til að ýta upp undirlagi og jafna það út. Undirlag vallarins var allt ræst fram með jöfnu millibili þar sem siturlögnum var komið fyrir í plaströrum sem tengdust svo i eina aðalframrás eftir endilöngum vellinum, fyrir það vatn sem drenrörin söfnuðu saman, en þau lágu þvert á völlinn. Teikningar voru gerðar af Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen og mest öll vinna unnin í sjálfboðavinnu.
Eftir að vinnu við undirlagið lauk, hófst vinna við að þekja völlinn. Það voru að sjálfsögðu félagsmenn sjálfir og velunnarar félagsins sem sáu um alla vinnu við byggingu vallarins. Þá mættu sjómennirnir seinni partinn, eftir að þeir komu að landi og hófust handa við þökulagningu. Þökulagt var fram í myrkur en þá var haldið niður á gamla fótboltavöllinn í mýrinni, bílnum stillt upp um-hverfis völlinn með ljósin kveikt og spilaður fótbolti.
Árið 1970 var svo nýi völlurinn tekinn í notkun og þótti hann allt frá upphafi afburðargóður til knattspyrnuiðkunar og var hann á tímabili talinn besti völlurinn á Norðurlandi. Í kringum knattspyrnu-völlinn var svo höfð hlaupabraut og önnur aðstaða til frjálsíþróttaiðkunar. Bygging vallarins var enn eitt merkið um stórhug og samtakamátt félaga í ungmennafélaginu Reyni.
Á árunum 1985 – 1988 var svo byggður nýr æfinga-völlur norðan við aðalvöllinn sem nýtist sérstaklega vel á vorin þar sem hann þornar mun fyrr en aðalvöllurinn og er hann gjarnan sá gras-völlur í Eyjafirði sem fyrst er tilbúinn til knattspyrnu-iðkunar á vorin.