Helgi magri

Í blaði Helga magra sem kom út 100 árum eftir að blaðið var stofnað skrifar Sveinn Jónsson:

Á því herrans ári 1910 kom út fyrsta eintak af handskrifuðu félagsblaði hins unga ungmannafélags Reynis, sem stofnað var 3. mars 1907. Blaðið hlaut nafnið Helgi hinn magri, og var lesið upp á félagsfundum, en að öðru leyti varðveitt handskrifað í sérstaka bók, og þannig var það til ársins 1994, er það var tölvuskráð og ljósritað, þannig að hægt var að senda það til allra félagsmanna og stundum inn á öll heimili í sveitinni. Birgir Marinósson hefur öll þessi ár séð um uppsetningu og tölvuskráningu, síðan hafa aðrir séð um fjölföldun og dreifingu. 


Með útgáfu á þessu litla blaði, sem er vissulega mjög misjanft að magni og gæðum, hefur varðveist margs konar fróðleikur frá mönnum og málefnum, sem eflaust hefði annars fallið í glatkistu og væri hvergi til sýnis. Misjafnt er milli ára hve mörg blöð komu út. Ofast eitt til tvö, stundum fleiri, og árið 1930 komu út 18 blöð. Fljótlega eftir að útgáfa blaðsins hófst var nafn þess stytt í Helga magra, og hefur hann því miður oft borið nafn með rentu. Birgir Marinósson hefur nú lokið við að tölvuskrá blaðið allt frá fyrsta tölublaði, svo að mögulegt er að setja það upp í bókarformi. Einnig hefur ritstjórn áhuga á að gera allt efni þess aðgengilegt í tölvutæku formi, eins og nútíma tækni gerir mögulegt. Eðlilegast er eflaust að það sé vistað inn á netsíðu ungmennafélagsins ásamt öðru efni, sem félagið vill koma á framfæri hverju sinni. Því miður hefur útkoma blaðsins ekki verið samfelld í þessa heilu öld. Síðan fyrsta blaðið leit dagsins ljós, er þetta 86. árgangur. Þó hefur það komið árlega út síðustu 60 árin. Það er von rifnefndar að svo megi verða um langa framtíð enn, og haldi með því uppi anda ungmennafélaga með atorku og dugnaði, sem hlúi að öllum góðum málum er til hagsældar horfi. Allar bækur Helga magra, sem fundist hafa, eru nú varðveittar á Héraðsskjalasafninu á Dalvík. 

Birgir Marinósson tekur við og skrifar:

Eins og að ofan segir var blaðið fyrst gefið út árið 1910, það ár alls 4 blöð. Hét blaðið þá Helgi hinn magri. 3 blöð gefin út 1911, næsta blað ekki fyrr en 1916. Árið 1924, ritstjóri Marinó Þorsteinsson, segir svo: “Eftir langa hvíld og sælan svefn byrjar Helgi hinn magri göngu sína enn á nýjan leik.” Þetta er talinn 5. árgangur. Árið 1927, ritstjóri J. Óli Sæmundsson, segir að það sé 9. árgangur, 8 ár hafi blaðið legið í dái. Er þá búið að breyta nafninu úr Helgi hinn magri í Helgi magri. Síðan virðist blaðið hafa verið gefið út árlega. 


Hér að neðan má nálgast blöðin.