Saga félagsins

Í 100 ára afmælisriti félagsins skrifaði Birgir Marinósson um sögu félagsins.

Umf. Reynir 100 ára.

Ég vil byrja á því að óska afmælisbarninu og öllum aðstandendum þess til hamingju með áfangann. Á 60 ára afmælinu árið 1967 flutti Snorri Kristjánsson mjög greinargóða samantekt af sögu félagsins, og ætla ég að endurflytja þetta erindi hans óbreytt, en þar segir svo:

" Í framhaldi af þeim sigrum, sem unnust í frelsisbaráttu þjóðarinnar á seinni hluta 19. aldar og upphafi hinnar 20., sem sé stjórnarskránni árið 1874 og heimastjórn árið 1904, sem var fyrst og fremst árangur af starfi fárra úrvalsmanna, sem helguðu líf sitt og starf hugsjóninni um frjálst og fullvalda Ísland, fer alda vakningar um landið, borin upp af fólkinu sjálfu, æskunni í landinu. Ungmennafélagshreyfingin sótti að nokkru sinn áhrifamátt austur um haf til Noregs, en byggði að öðru leyti tilveru sína á ríkri þörf til félagslegra átaka og umbóta á mörgum sviðum okkar þjóðlífs,og til að fylgja eftir að lokamarki sókninni til fullkomins sjálfstæðis. Þá stefndi hún einnig og ekki síður að því að auka og þroska manngildi einstaklinganna, vekja þá til menningaráhrifa og magna þá til afreka.

Ungmennafélagshreyfingin setti sér í upphafi göfug og þjóðleg stefnumið, byggja skyldi á fornum menningararfi, glæða áhuga fyrir bókmenntum þjóðarinnar, fegrun og hreinsun tungunnar, hefja íþróttalíf til fyrri frægðar, klæða landið, vinna að bindindi, efla drengskap og kristilegt líferni.

Eftir stofnun Umf. Akureyrar 1. jan. árið 1906 gætti fljótt áhrifa þaðan út um sveitir, og munu þeir straumar m.a. fljótt hafa borist hér út á Árskógsströnd. Tveir af hvatamönnum að stofnun Umf. Reynis höfðu dvalist á Akureyri um þetta leyti og orðið snortnir af anda félagsskaparins. Þegar heim kom hófu þeir þegar að kynna hann félögum sínum og undirbúa félagsstofnun. Menn þessir voru Ólafur Þorsteinsson og Jóhann Fr. Kristjánsson. Þá kom Guðbrandur Sigurðsson einnig til liðs við þá. Þessir menn munu einnig hafa gert uppkast að stefnuskrá eða lögum. Einnig munu þeir hafa notið liðsinnis sóknarprestsins sr. Stefáns Kristinssonar.

Umf. Reynir var stofnað að Stærri-Árskógi 3. mars árið 1907 með 20 félögum, piltum og stúlkum. Ólafur Þorsteinsson setti fundinn og skýrði tilganginn með stofnun félagsins. Þá voru mættir frá Umf. Akureyrar Erlingur Friðjónsson og Jóhannes Jósefsson, sem báðir fluttu ræður á fundinum. Lög voru samþykkt og undirskrifuð og ákveðið að ganga í Umf. Íslands. Árgjaldið var ákveðið 1 króna á mann. Í fyrstu stjórn voru kosnir Guðbrandur Sigurðsson formaður, Ólafur Þorsteinsson ritari og Jóhann Fr. Kristjánsson gjaldkeri. Þessi stjórn starfaði óbreytt fyrstu þrjú árin.

Fyrir stofnun Umf. Reynis var málfundafélag starfandi í sveitinni og mun það hafa auðveldað nokkuð félagsstörf til að byrja með. Víða var margt ungt fólk á bæjum hér, sums staðar um og yfir 20 manns í heimili, svo ekki er ólíklegt að félagsskap sem þessum hafi verið vel tekið af mörgum. Hitt mun einnig hafa verið til að hann hafi verið litinn óhýru auga og talinn hafa glepjandi og siðspillandi áhrif á unglingana. Sýnist mér í dag að síst hafi verið ástæða til slíkra ásakana eftir fundarræðum að dæma á þeim tíma. Þar virðist mjög ofarlega viljinn til að efla þjóðlegar dyggðir og trúarlíf.

Hallfríður Jóhannsdóttir átti ríkan þátt í trúmálaumræðum á fundum félagsins fyrstu árin. Rætt var um leiðir til að auka kirkjusókn og bæta trúarlíf í sveitinni. Lesnir voru húslestrar í byrjun funda fyrstu árin og mikið sungið, bæði sálmar og ættjarðarljóð. Fundarstarfsemi var mikil og þátttaka í umræðum virðist hafa verið almenn. Oft fluttu framámenn félagsins stutt erindi á fundum, eða aðkomumenn fengnir til þess. Það kom líka snemma fram í félaginu vilji til hjálpar þeim, sem urðu fyrir veikindum eða áttu mótdrægt. Árlega var úthlutað ofurlítilli fjárhæð til þeirra, sem álitnir voru í mestri þörf fyrir hjálp, einnig bar oft við að ungmennafélagar komu saman og unnu að heyskap dagsstund eða næturlangt fyrir þá, sem voru hjálparþurfi. Var þetta yfirleitt vel séð og metið að verðleikum.

Eftir stofnun Kvenfélagsins Hvatar, sem að verulegu leyti skyldi helga sig mannúðarmálum, enda unnið að því æ síðan með miklum sóma, leggst góðgerðarstarfsemi að mestu leyti niður á vegum Reynis. En það var með stofnun kvenfélagsins eins og mörg önnur góð málefni, að hún kom fyrst til umræðu á fundum ungmennafélagsins. Aðalhvatamenn að stofnun kvenfélagsins voru Ólafur á Krossum og Kristján á Hellu, og voru þeir ásamt Jóni Níelssyni kosnir í nefnd til að hrinda málinu í framkvæmd. Kvenfélagið var stofnað 2. apríl árið 1918 og fékk í byrjun ofurlítið starfsfé, sem ungmennafélagar söfnuðu og gáfu úr félagssjóði. ( kr. 460).

Við stofnun Kristneshælis hafði ungmennafélagið forgöngu um fjársöfnun og gaf einnig ofurlitla upphæð til byggingar sjúkrahússins. Þessar upphæðir teljast varla umtalsverðar nú, en tímarnir voru aðrir þá og ekki af miklu að gefa og gengi peninga annað. Möguleikar til fjáraflana voru litlir lengi framan af og reyndar allt til þess tíma að byggingu samkomuhússins er lokið, enda eins og raun ber vitni oftast hafin samskot ef góðu máli þurfti að ljá lið. Þó var fitjað upp á ýmsu til öflunar tekna. Meðal annars var tekið á leigu garðland, það unnið og girt og sáð í það kartöflum. Kartöflurækt hefur þó aldrei verið árviss hér í sveit og því höfðu ungmennafélagar oftast lítinn arð og stundum aðeins erfiði. Heyskapur var um nær 20 ára skeið, eða til ársins 1942, fastur liður í sumarstarfinu og gaf stundum ofurlitlar tekjur. Var þá samið við vissa bændur um engjalán. Stefnt var saman öllum ungmennafélögum á tilteknum sunnudegi, slegið með orfi og ljá og rakað með hrífu og heyið síðan selt, ýmist í flekkjum eða þurrkað. Þarna ríkti jafnan glaðværð og góður andi og fólkið naut þess að koma saman og erfiða góða stund í glöðum hópi og gat með því fært félaginu fáeinar krónur svo

afreka mætti meira. Til dæmis um það að ekki var alltaf til nærtækt slægjuland, var eitt sinn túnið á Hrafnagili tekið á leigu og heyjaðir þar 18 hestar. Um framleiðslukostnað var ekki spurt. Þá má ennfremur geta þess að nokkrum sinnum var brugðið á það ráð að hópast í vegavinnu og létu stúlkurnar ekki sinn hlut eftir liggja að vinna þar með reku og gaffli.

Heimilisiðnaður hefur oft verið veigamikill þáttur í félagsstarfinu. Strax árið 1908 var vakið máls á eflingu heimilisiðnaðar og hannyrða, en fjórum árum seinna er hannyrðasýning í sambandi við opinbera samkomu, og vakti það athygli. Árið 1925 er tekinn upp sá háttur er helst um tugi ára, að félagsmenn gerðu ýmsa muni, er síðan voru seldir á opinberri samkomu. Þetta hafði tvennt í för með sér, félaginu opnaðist þarna nýr tekjuliður, sem með árunum varð mjög verulegur, þó fyrsta árið gæfi hann aðeins kr. 13,50, og annað hitt að hann örvaði félagmenn og konur til að beita hug og hönd við gerð smekklegra og gagnlegra hluta. Námskeið voru einnig haldin í saum, smíðum og tréskurði, sem örvaði þessa starfsemi verulega og glæddi listhneigð unglinga og féll sums staðar í mjög frjóan jarðveg og bar ríkulegan ávöxt.

Skógrækt var eitt af stefnumálum félagsins og var rædd á fyrstu árum þess. Rætt var um að koma á sérstökum skógræktardegi. Bauðst Kristján á Hellu til að gefa land til skógræktar, en ekki varð af framkvæmd að öðru leyti en því að trjáplöntur voru gróðursettar í kirkjugarðinum, en eyðilögðust af ágangi vegna lélegra girðinga. Síðan var hljótt um þessi mál, en þau nokkuð rædd kringum árið 1930. Ekkert varð þó af framkvæmd fyrr en árið 1940 að hafin er gróðursetning trjáplantna hér á skólalóðinni, og er lögð mikil sjálfboðavinna næstu árin í þennan reit, sem fór mjög vel af stöfnum fyrstu árin.

Íþróttir hafa frá upphafi verið mikill og vinsæll þáttur í félagsstarfinu, þó í misjafnlega ríkum mæli eftir aðstöðu og aldarhætti. Fyrstu árin voru glíman og sundið aðalgreinarnar og þóttu á þeim árum góðir glímumenn hér og sýndu þeir glímu opinberlega hér og á Dalvík og tóku þátt í kappglímu á Akureyri. Sund var einnig iðkað á þeim árum og fór sundkennsla fram við Móatjörn, sem hafði verið lagfærð og byggt þar sundskýli. Eftir að Sundskáli Svarfdæla kom upp leituðu margir þangað. Oft var rætt af ákafa á félagsfundum um að koma upp aðstöðu til sundiðkana hér í sveit. Árið 1937 hefst sundnámskeið í Sundskála Svarfdæla á vegum félagsins og voru þátttakendur fluttir á milli á bílum. Þetta fyrirkomulag helst til ársins 1944 eða í 8 ár, þar til sundskylda skólabarna komst á og ríkið greiddi hluta af kostnaði. Áður greiddi ungmennafélagið hluta af kostnaði og útvegaði styrk úr sýslusjóði.

Fimleikanámskeið voru haldin af og til, það fyrsta árið 1918, en frá árinu 1928 flest ár í einhverri mynd, oft með mikilli þátttöku og góðum árangri, einnig voru æfðir vikivakar og þjóðdansar. Aðstaða til íþróttaiðkana og knattleikja var lengi vel engin fram yfir það, sem sléttar grundir og túnblettir gáfu tilefni til. Árið 1925 var hafist handa við byggingu íþróttavallar á Brimnesi og ungmennafélagið styrkti það að nokkru. Árið 1939 var svo gerður íþróttavöllur hér við skólahúsið og varð hann strax mikil lyftistöng íþróttalífi félagsins, auk þess að vera leikvangur skólabarnanna. Síðan má segja að hér hafi verið miðstöð íþróttalífs félagsins bæði úti og inni, enda eignaðist félagið marga efnilega íþróttamenn næstu ár, sem gátu sér orðstír innan héraðs og utan. Samfara meiri kröfum um betri íþróttaaðstöðu og stóraukin fjárráð, hefur nú verið hafist handa um stórmyndarlegt íþróttamannvirki hér austan við. Er þess að vænta að sú bjartsýni og sá stórhugur, sem að baki þeim framkvæmdum stendur, eigi eftir að bera ríkulegan ávöxt í auknum áhuga á almennri iðkun íþrótta og hollu tómstundalífi æskufólks í þessari sveit um ókomin ár.

Eins og eðlilegt er um æskulýðsstarfsemi hefur skemmtanalíf skipað ríkan þátt í félagsstarfinu frá byrjun, en eins og allir vita er það að því leyti tvíþætt að það skapar æskufólki aðstöðu til samfunda og gleðskapar, en gefur félaginu tekjur til starfseminnar. Ég held að það sé ekki ofsagt að forráðamenn Umf. Reynis hafi frá því fyrsta látið sér mjög umhugað um góðan skemmtibrag og menningarlegan. Á fyrstu samkomu sem félagið hélt var aðgangseyrir 15 aurar en 10 aurar fyrir börn. Þegar það er jafnframt athugað að húsrými var lítið og ágóðasamkomur lengi vel ein til þrjár á ári, þá gáfu upphæðir þær sem inn komu ekki mikla möguleika. Fyrstu árin voru fundir og samkomur haldnar á heimilum, og sums staðar greidd leiga, 1-2 krónur. Snemma vaknaði vilji til að eignast eigið húsnæði. Á fyrsta starfsári flutti Jóhann Fr. Kristjánsson tillögu um að félagið byggði sér steinhús, en það mun þá hafa verið talið ofviða getu þess. Árið 1911 kaupir Kristján E. Kristjánsson sjóhús á Litla-Árskógssandi fyrir hönd félagsins, sem síðan var endurbætt og selt hreppnum að hálfu. Var þar með bætt úr brýnni þörf og við það búið að mestu til ársins 1940.

Fyrir árið 1930 var mikill áhugi vaknaður fyrir byggingu nýs húss, og var Jóhannes Óli Sæmundsson manna sóknharðastur, og beitti áhrifum sínum innan félags og utan næstu árin og naut í því máli óskoraðs stuðnings samfélaga sinna, sem margir lögðu hart að sér á þessum árum með gjöfum og fjárframlögum. Sú saga verður ekki rakin frekar nú, enda mörgum kunn. En árið 1938 var bygging hafin, en henni ekki lokið fyrr en árið 1942. Höfðu allir mikla raun af þeim töfum, sem urðu á framkvæmdum, og erfitt var um starfsemi við þær aðstæður sem sköpuðust. Mikil ánægja ríkti hins vegar þegar húsbyggingunni var lokið, sem þá var talin stærsta og veglegasta skóla- og samkomuhús sem byggt hafði verið utan kaupstaðar á þessum tíma. Það er gaman að geta þess að það var heiðursfélagi Umf. Reynis,

Jóhann Fr. Kristjánsson, sem teiknaði húsið, sá hinn sami og flutti tillögu um húsbyggingu félaginu til handa 30 árum áður.

Á fyrstu árum Reynis skipuðu bindindismálin veglegan sess í starfseminni og var svo löngum fram eftir árum, þó með nokkrum ölduhreyfingum. Markast sá þáttur félagsstarfsins verulega af vissum tímabilum og vissum forystumönnum. Miklar umræður urðu oft á fundum um þau mál og stundum heitar. Vínbindindisákvæði hefur verið í lögum félagsins frá fyrstu tíð, þar til fyrir nokkrum árum að það var fært til samræmis við lög UMFÍ. Reynt var oft með góðum árangri að hamla gegn tóbaksnautn, og lengi voru reykingar bannaðar á samkomum hér í húsinu. Frá árunum 1925-1940 bar Jóhannes Óli hita og þunga af bindindisbaráttu innan félagsins og varð oft vel ágengt. Með heimsstyrjöldinni síðari losnaði verulega um ýmsa hefðbundna þætti okkar þjóðlífs, og þegnlegar dyggðir, sem eru sterkustu stoðir félagslífsins, brustu að nokkru er miklir peningar ráku á fjörur.

Það hefur hér á undan verið gerð nokkur grein fyrir starfsemi félagsins og málefnabaráttu, einkum á fyrri árum, en margt er ótalið, og þó engu síður mikilsvert en margt af því, sem nefnt hefur verið. Þó verður ekki svo við þetta skilið að ekki verði minnst á blað félagsins, Helga magra, en það var stofnað árið 1910 að tillögu Ólafs Þorsteinssonar, og hefur komið út síðan að fáum árum undanskildum. Oft voru mörg blöð á ári og flutt mikið og fjölbreytt efni, fróðlegt og skemmtandi, bunið mál og óbundið. Þó ritnefndir hafi átt að sjá um útkomu blaðsins, hefir þó löngum skipast svo að mest hefur mætt á ritstjóranum."

Þetta var samantekt Snorra Kristjánssonar, og ætla ég nú að minnast á það helsta, sem félagið hefur unnið að á árunum 1967-1997. Eins og minnst var á hér á undan hófst framkvæmd við íþróttasvæði árið 1963 og árið 1970 var knattspyrnuvöllurinn vígður. Í starfsskýrslu fyrir árið 1966 segir svo: "Aðstaða til knattspyrnuæfinga var erfið í vor sökum lasleika gamla vallarins, en úr því rættist þó, þegar félagið fékk afnot af Stærri-Árskógsmýrum. Voru knattspyrnuæfingar nokkuð vel sóttar í mýrinni og einnig fóru þar fram nokkrir kappleikir við misjafna dóma aðkomumanna." Var völlur þessi notaður þar til nýi völlurinn komst í gagnið. Var sú vallargerð mikið átak, völlurinn vel undirbyggður, moldarlagi og húsdýraáburði ekið ofan á og síðan þökulagt. Handboltavöllur og frjálsíþróttasvæði voru svo tekin í notkun árið 1975. Það ár var héraðsmót UMSE í frjálsum íþróttum m.a. haldið þar í fyrsta sinn. Þessi framkvæmd var gerð möguleg með miklu og samstilltu átaki yngri og eldri félagsmanna, þar sem ómæld sjálfboðavinna var lögð að mörkum. Vélar og tæki voru fengin að láni gegn vægu gjaldi, þökur voru fengnar af túnum án endurgjalds að öðru leyti en því að árið 1970 heyjuðu ungmennafélagarnir upp á gamla móðinn, slógu með orfi og ljá og rökuðu með hrífum til að bæta upp heytap þeirra er létu þökur af hendi. Báru þar einhverjir í fyrsta sinn ljá að strái. Árið 1981 var svo hafist handa við gerð malarvallar, en síðar var ákveðið að breyta honum í grasvöll, og er nú notaður sem æfingavöllur.

Dansleikja- og samkomuhald var um langt skeið ein helsta tekjulind félagsins. Nú síðari ár hefur orðið mikil breyting þar á, hin svokölluðu sveitaböll ekki lengur í tísku. Félagið hefur því í auknum mæli orðið að finna aðrar leiðir, og ber þar hæst veitingasölu í tengslum við mót á íþróttavellinum og ýmiss konar vörusölu í tengslum við starfsemi UMSE. Þá má einnig nefna hagnað af getraunum og lottói, félagsvistir, bingó, hlutaveltur og innansveitarsamkomur með heimagerðu skemmtiefni. Árshátíð félagsins hefur verið fastur liður hin síðari ár og árið 1990 var haldin skemmtun, þar sem ýmsir heimamenn sungu þekkt dægurlög við undirleik hljómsveitar. Vakti þetta mikla lukku og athygli og hefur verið nær árviss viðburður síðan og fengið nafnið Rokkhátíð. Þá hefur félagið tekið að sér verkefni eins og girðingavinnu, málningarvinnu o.fl. gegn greiðslu.

Iðkun knattspyrnu hefur verið snar þáttur í starfi félagsins. Á 35 ára tímabili frá árinu 1962 til ársins 1996 hefur félagið borið sigur úr býtum á héraðsmóti UMSE í 21 skipti og orðið 9 sinnum í öðru sæti. Hæst ber þó er félagið vann sér þátttökurétt í annarri deild Íslandsmótsins árið 1975 og hélt sér í deildinni um þriggja ára skeið. M.a. var ráðinn skoskur þjálfari er starfaði hér um tveggja ára skeið. Fóru menn víða um land að spyrjast fyrir um hvaðan í ósköpunum þetta lið kæmi og áttu bágt með að trúa því að um 300 manna samfélag gæti haldið úti annarrar deildar liði. Sú saga gekk víða og átti við rök að styðjast að skipstjórar bátanna kæmu með háseta sína í land hvernig svo sem á stóð, til að þeir gætu tekið þátt í leikjum. Ekki var minna afrek þeirra sem sáu um fjármögnun þessa þáttar, og lögðu margir þar hönd á plóg. Félagið hélt áfram þátttöku í Íslandsmótinu, lengst af í þriðju deild, en árið 1992 var ákveðið að hætt þátttöku og taka upp samvinnu við Umf. Svarfdæla. Um árabil hefur félagið þó tekið þátt í Íslandsmótum í innanhússknattspyrnu, oft með ágætum árangri. Eftir að farið var að halda knattspyrnumót yngri leikmanna á vegum UMSE hafa félagar úr Reyni oftast staðið sig með ágætum.

Árið 1966 færði Valdimar Kjartansson félaginu styttu að gjöf, farandstyttu er veita skyldi árlega þeim félaga er sýndi mesta ástundun og getu í knattspyrnu á hverju ári. Nokkru síðar fylgdu í kjölfarið styttur fyrir yngri knattspyrnumenn og handbolta kvenna. Árið 1974 er svo íþróttamaður ársins kjörinn í fyrsta sinn. Hefur félagið í vaxandi mæli veitt viðurkenningar fyrir ástundun og afrek í íþróttum.

Handknattleikur kvenna var lengi á dagskrá, og á árunum 1966 til 1984 tók félagið þátt í héraðsmóti UMSE. Á þessu 19 ára tímabili sigraði félagið 8 sinnum og varð 5 sinnum í öðru sæti. Árið 1987 tók svo kvennaknattspyrna við af handboltanum og hefur félagið tekið annað slagið þátt í héraðsmóti UMSE, m.a. sigrað í 2 skipti.

Bridgeíþróttin var oft mikið stunduð og tóku 2 sveitir um árabil þátt í héraðsmóti UMSE, oftast með ágætum árangri. Skáklistin var aldrei mjög almenn, en einstaka skákmenn hafa þó staðið sig með prýði á mótum UMSE.

Á árunum 1966 og fram yfir 1970 var skíðaganga mikið stunduð í tengslum við skólann og eignaðist félagið ágæta göngumenn sem stóðu sig vel á mótum UMSE, ásamt nokkrum eldri félögum, sem fengið höfðu gönguuppeldi á Héraðsskólanum að Laugum. Árið 1975 var svo sett upp togbraut í Stærri-Árskógsborgum, og var hún starfrækt um nokkurt skeið. Nú seinni ár hafa félagar í Reyni nýtt sér ágæta aðstöðu á skíðasvæði Dalvíkinga og félagið eignast ágæta skíðamenn í Alpagreinum.

Blakíþróttin var um árabil mikið stunduð, en lítið keppt út á við í þeirri grein. Þá hefur borðtennis lítillega verið á dagskrá. Reynisfélagar hafa á stundum náð í stig fyrir sitt félag á sundmótum UMSE, sérstaklega eftir að sundlaug var byggð við Árskóg.

Frjálsar íþróttir hafa frá öndverðu verið stundaðar af félagsmönnum, og hefur félagið löngum haft góðu liði á að skipa. Hefur félagið verið sigursælt á héraðsmótum UMSE og á 35 ára tímabili frá árinu 1962 til ársins 1996 hefur félagið sigrað 15 sinnum og orðið 3 sinnum í öðru sæti. Á landsmótum UMFÍ hafa félagar úr Reyni oft borið sigur úr býtum bæði í frjálsum íþróttum og í starfsíþróttum, einnig hlotið önnur verðlaunasæti. Nú síðustu ár eftir að farið var að halda Íslandsmót í yngri aldursflokkum, höfum við bæði eignast Íslandsmeistara og Íslandsmethafa.

Árið 1964 hófst keppni milli félaga innan vébanda UMSE um svokallaðan Sjóvábikar, er umboðið á Akureyri gaf sambandinu. Bikar þessi var veittur árlega því félagi, sem flest stig hlaut í öllum mótum UMSE. Var samin sérstök reglugerð um þennan bikar. Frá árinu 1964 til ársins 1996, eða um 33 ára skeið, hefur Reynir unnið þennan bikar 12 sinnum og orðið í öðru sæti 10 sinnum, sem verður að teljast frábær árangur. Ekki verður lengur keppt um þennan bikar.

Leiklist hefur jafnan verið á dagskrá og ýmsir sjónleikir settir á svið auk ýmissa styttri þátta. Sjónleikirnir oftast í samvinnu við Kvenfélagið Hvöt. Sjónleik sýndi félagið fyrst um veturinn 1920 sem bar heitið "Saklaus og slægur." Til gaman má geta að aðgangseyrir var 1 kr. fyrir fullorðna og 50 aurar fyrir börn. Spanskflugan var leikin árið 1941, Í betrunarvist árið 1943 og Sundgarpurinn árið 1944. Eftir 1960 man ég eftir leikritum eins og Alicu frænku, Grænu lyftunni og Leynimel 13. Voru leikrit þessi sýnd í nágrannabyggðum, m.a. farið sjóleiðis til Ólafsfjarðar.

Þá er komið að síðustu 10 árunum í sögu félagsins. Vegleg afmælisveisla var haldin í tilefni 90 ára vegferð félagsins árið 1997. Farið var yfir það helsta í sögu félagsins. Formaður félagsins, Marinó Þorsteinsson, setti samkomuna og stjórnaði henni. Ávörp fluttu ýmsir fulltrúar ungmenna- og íþróttahreyfingarinnar og færðu félaginu árnaðaróskir og gjafir.

Þann 14. mars árið 1999 var haldið alþjóðlegt stökkmót í Íþróttahöllinni á Akureyri á vegum Reynis, þar sem keppt var í stangarstökki, langstökki og hástökki. Á mótið komu fimm erlendir keppendur ásamt okkar fremsta frjálsíþróttafólki. Mesta lukku gerði Einar Karl Hjartarson þegar hann tvíbætti Íslandsmetið í hástökki karla og fór yfir 2,20 metra. Frábært framtak Reynismanna.

Árin 1997-2006 hefur frjálsíþróttafólk Reynis tekið þátt í öllum mótum á vegum UMSE, staðið sig með ágætum og unnið til fjölda verðlauna. Kemur þetta fram í starfsskýrslum frjálsíþróttadeildar, sem skráðar eru í Helga magra ár hvert. Í starfsskýrslunni árið 2004 stendur m.a.:

“Aldursflokkamót UMSE var haldið að vanda á Dalvíkurvelli í ágúst. Þangað fjölmenntu Reynismenn og sýndu okkur frábær tilþrif. Við hesthúsuðum hvorki fleiri né færri en 26 verðlaunum; 12 gull, 9 silfur og 5 brons.”

Í sömu skýrslu segir:

“Krakkarnir stóðu sig frábærlega í öllu, sem þau tóku sér fyrir hendur á árinu. Þau höguðu sér íþróttamannlega bæði innan vallar sem utan og voru félaginu til mikils sóma.”

Árleg samskipti hafa verið við Hríseyinga, gjarnan keppt þar í hlaupi, stökki og boltakasti, farið í leiki og síðan sest að veisluborði.

Þá hafa Reynisfélagar tekið þátt í landsmótum UMFÍ, víðavangshlaupum Íslands, meistaramótum Íslands, Bændadagshlaupum og Þorvaldsdalsskokki og unnið til fjölda verðlauna, m.a. átt Íslands- og landsmótsmeistara.

Á aðalfundum var árlega lesið upp úr blaði félagsins, Helga magra. Blaðið var lengst af handskrifað, en frá og með 1. blaði árið 1994 hefur það verið fjölritað og dreift á öll heimili sveitarinnar. Þar eru skráðar starfsskýrslur félagsins ásamt ýmsum sögum og ljóðum félagsmanna. Þá hefur svonefndur annáll verið skráður frá árinu 1979 þar sem getið er um fæðingar, fermingar, andlát, afmæli og giftingar á félagssvæðinu. Frá upphafi hefur Ása Marinósdóttir séð um annálinn. Þess má til gamans geta að Sveinn Jónsson hefur verið í ritnefnd Helga magra allt frá árinu 1951. Þá var Kristján E. Vigfússon frá Litla-Árskógi ritstjóri blaðsins um 25 ára skeið og skrifaði í það manna mest, bæði frásagnir, frumortar sögur og ljóð. Búið er að tölvuskrá blaðið frá og með árinu 1960 og stefnt að því að skrá allt það sem til er af blaðinu, en eitthvað mun hafa glatast. Þá gaf félagið út nokkur fréttabréf árin 1988 og 1989.

Síðustu 10 ár hefur knattspyrnan skipað stóran sess í starfinu, sem og lengstaf áður. Í knattspyrnuannál árið 1998 segir svo:

“Mikill áhugi er meðal barna í knattspyrnu hér á Árskógsströnd. Náðum við að vera með þrjá aldursflokka, 8 ára og yngri, 12 ára og yngri og 16 ára og yngri. Ekki þurfti að spyrja um úrslit þegar krakkarnir kepptu við önnur lið á svæðinu, því þau höfðu mikla yfirburði yfir öll önnur lið nema frá Dalvík. Þar var jafnt á metum.”

Karla- og kvennalið félagsins spiluðu ýmsa æfingaleiki og tóku þátt í mótum UMSE, oftast með ágætum árangri. Í knattspyrnuannál 1999 segir svo:

“Lið skipað leikmönnum átta ára og yngri spilaði einnig æfingaleiki sl. sumar. Þetta lið stóð sig mjög vel og vann alla sína leiki.”

Árið 2003 var ákveðið að senda lið til þátttöku í 3. deild Íslandsmóts karla eftir 12 ára hlé. Auk þess hefur karlaliðið tekið þátt í Íslandsmótum í innanhússknattspyrnu og bikarkeppni KSÍ.

Í upphafi árs 2006 var ákveðið að sameinast knattspyrnudeild Umf. Svarfdæla í meistaraflokki karla og sameiginlegt lið undir nafninu Dalvík/Reynir sent til keppni í VISA-bikarkeppni KSÍ, deildarbikarkeppni og Íslandsmóti 3. deildar.

Árið 2003 voru fest kaup á húsi, sem sett var niður við íþróttasvæðið og tekið í notkun nokkru síðar, þótt ekki sé það enn fullbúið. Aflað hefur verið fjár með rokkhátíðum, blómasölu, jólavörusölu og vinnuframlagi félagsmanna svo eitthvað sé nefnt.

Góðir ungmennafélagar. Eins og fram hefur komið hér á undan hafa félagar í Reyni komið víða við í starfinu. Þó hefur ekki verið minnst á ýmiss samskipti við önnur félög, sem oft hefur verið snar þáttur í starfinu, þjóðdansar hafa verið æfðir og sýndir, farið í ferðalög, tekið þátt í landgræðslu og víðavangshlaupum o.fl. o.fl. Mest um vert er þó hið félagslega uppeldisstarf sem ómetanlegt hefur verið mörgum ungum konum og körlum og komið þeim til góða í lífsbaráttunni.

Einhvers staðar verður að láta staðar numið og vil ég ljúka máli mínu með þessum orðum.

Áfram skal veginn varða

verkefni stóru og smáu,

áfram skal stöðug standa

stefnan að marki háu.

Æskunni allt til heilla

æ megi starfi ráða.

Arfur ötulla handa

örvi til nýrra dáða.