Helgi magri á netinu

12. maí 2024

Helgi magri er félagsblað Ungmennafélagsins Reynis en það var fyrst gefið út á árinu 1910. Í blaði Helga magra sem kom út árið 2009 skrifar Sveinn Jónsson:
„Á því herrans ári 1910 kom út fyrsta eintak af handskrifuðu félagsblaði hins unga ungmannafélags Reynis, sem stofnað var 3. mars 1907. Blaðið hlaut nafnið Helgi hinn magri, og var lesið upp á félagsfundum, en að öðru leyti varðveitt handskrifað í sérstaka bók, og þannig var það til ársins 1994, er það var tölvuskráð og ljósritað, þannig að hægt var að senda það til allra félagsmanna og stundum inn á öll heimili í sveitinni.“

Fljótlega eftir að útgáfa blaðsins hófst var nafn þess stytt í Helga magra en blaðið hefur verið gefið út í 98. árgöngum. Nú má finna öll blöð, sem hafa verið varðveitt, í tölvutæku formi á heimasíðu félagsins. Birgir Marinósson sá um að tölvuskrá öll handskrifuðu blöðin.

Sveinn segir einnig í blaðinu 2009:
„Með útgáfu á þessu litla blaði, sem er vissulega mjög misjanft að magni og gæðum, hefur varðveist margs konar fróðleikur frá mönnum og málefnum, sem eflaust hefði annars fallið í glatkistu og væri hvergi til sýnis.“

Við hvetjum ykkur til að fletta í gegnum gömul blöð en þar má finna ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt. Þar má til að mynda nefna ljóð, sögur og skýrslur úr starfi félagsins. Einnig hefur Ása Marinósdóttir skráð svokallaðan annál þar sem skráðar eru fæðingar, fermingar, giftingar, afmæli á 5 ára fresti frá 70 ára og andlát. Annála má finna í blöðum Helga magra á hverju ári frá 1980 en annáll hvers árs hefur verið skráður í blað næsta árs. 

Nýjasta blað Helga magra var gefið út á árinu 2022. Þar má finna kveðjuorð frá þeim hjónum Sveini og Ásu þar sem þau sjá sér ekki fært að vinna áfram að útgáfu blaðsins. Sveinn og Ása eiga skilið miklar þakkir fyrir þeirra störf, bæði vegna Helga magra og annarra starfa fyrir ungmennafélagið. Þau hafa séð til þess að halda útgáfu blaðsins gangandi og má nefna að Sveinn hefur verið samfleytt í ritnefnd frá árinu 1952. Ása hefur í skemmri tíma verið í ritnefnd en hefur verið mikill drifkraftur í að halda blaðinu gangandi.

Hér má finna blöðin.