Lög Umf. Reynis

20. mars 2011

1. grein.

Félagið er ungmennafélag og heitir Reynir, skammstafað UMFR. Félagssvæði þess er Árskógsströnd í Eyjafjarðarsýslu.

2. grein.

Tilgangur félagsins er:

A: Að reyna af alefli að vekja löngun hjá æskulýðnum til þess að starfa fyrir sjálfan sig, land sitt og þjóð.

B: Að temja sér að beita starfskröftum sínum í félaginu og utan þess.

C: Að reyna eftir fremsta megni að styðja, viðhalda og efla það sem þjóðlegt er og horfir til gagns og sóma fyrir sveit vora og hina íslensku þjóð.

D: Að vinna að iðkun íþrótta, bæði til keppni og almenningsheilla.

3. grein.

Tilganginum hugsar félagið sér að ná með því:

A: Að halda fundi þar sem rædd eru þau mál er félagið varða og höfð til skemmtunar ýmis atriði er saman fara við stefnuskrá þess.

B: Að taka þátt í og beita sér fyrir ýmsum störfum og framkvæmdum er orðið geta bæði félaginu og einstaklingi til eflingar og þroska.

C: Að skapa sem besta aðstöðu fyrir alla þá sem íþróttir stunda bæði til keppni og tómstundaiðkunar.

4. grein.

Félagar geta þeir einir orðið sem leitast við að byggja stefnu sína á almennum siðferðislegum grundvelli. Ennfremur beitir félagið sér eftir mætti gegn neyslu tóbaks og annarra ávana- og fíkniefna.

5. grein.

Löglegur félagsmaður getur sá einn talist sem er samþykkur lögum félagsins og viðurkennir þannig að hann vilji og ætli að starfa samkvæmt tilgangi félagsins.

6. grein.

Árstillög félagsmanna 18 ára og eldri skulu ákveðin af aðalfundi.

7. grein.

Félaginu stjórna fimm menn: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Ritari og gjaldkeri tilnefni sjálfir sína varamenn og taki sérstakt tillit til þess að varamaður búi á félagssvæðinu.

8. grein.

Skyldur stjórnarinnar eru:

A: Að hafa yfirumsjón með öllum störfum félagsins og líta eftir að lög þess séu haldin.

B: Formaður boði til funda og auglýsi þá með fyrirvara. Hann setji fundi og stjórni þeim eða tilnefni fundarstjóra í sinn stað. Þó er hann skyldugur til að skipa fundarstjórn á aðalfundi. Í byrjun hvers fundar skal formaður leggja fram skrifaða dagskrá fyrir fundinn.

C: Ritari bóki öll störf félagsins í gerðabók. Á fundum má hann þó taka sér aðstoðarritara er skrifi fundargerð og undirriti hana ásamt formanni (fundarstjóra) eftir að hún hefur verið samþykkt og innfærð í gerðabók félagsins.

D: Gjaldkeri bóki öll fjármál félagsins, annist um innheimtu og útborganir og ávaxti fé þess eftir þörfum.

9. grein.

Aðalfund félagsins skal halda fyrir ársþing UMSE og eigi síðar en 1. apríl ár hvert. Fundurinn skal auglýstur með að minnsta kosti viku fyrirvara og telst hann lögmætur, ef löglega er til hans boðað. Aðalfundur er opinn fyrir alla.

Störf hans eru:

A: Ritari gefi stutt yfirlit yfir störf félagsins á árinu samkvæmt gerðabók.

B: Gjaldkeri leggi fram og lesi ársreikninga félagsins (endurskoðaða af tveimur þar til kjörnum mönnum) og geri grein fyrir fjárhagsstöðu þess. Ber fundarstjóri þá síðan upp til samþykktar.

C: Félagatal (úrsögn og íganga).

D: Lagabreytingar.

E: Stjórnarkjör.

F: Fastanefndakosningar.

G: Önnur mál.

10. grein.

Í félagið má ganga hvenær sem er. Þeir sem keppa undir merki félagsins og eru 18 ára eða yngri teljast sjálfkrafa félagar. Úrsögn er bundin við aðalfund, þó er stjórn heimilt að vísa félaga úr félaginu greiði hann ekki árgjald.

11. grein.

Félagið gefi út blað sem nefnist Helgi magri og sé það lesið upp á fundum félagsins ef þess er kostur, en annars sé það fjölfaldað og sent í öll hús á félagssvæðinu.

12. grein.

Afl atkvæða ræður úrslitum mála á öllum fundum félagsins. Atkvæðagreiðsla fari fram með handauppréttingum. Í stærri málum má þó krefjast skriflegrar atkvæðagreiðslu eða nafnakalls.

13. grein.

Allar fastanefndir skulu kosnar á aðalfundi og gildir sú kosning til næsta aðalfundar. Hafa þær framkvæmdarvald hver í sínu sérmáli en félagsstjórn og félagsfundir hafa íhutunarrétt um starf þeirra (sjá 16. grein). Stjórnar- og nefndarmenn geta ekki skorast undan endurkjöri fyrr en eftir þriggja ára samfelldan starfstíma nema sérstakar ástæður liggi þar á bakvið.

14. grein.

Nefndarkosningar séu ýmist skriflegar eða samþykktar eftir uppástungum. Fundarsamþykkt skeri úr um hvort heldur sé. Uppástunguleyfi veitir fundarstjóri.

15. grein.

Utanfélagsmönnun leyfist ekki að sitja á fundum félagsins (sjá þó 9. grein) nema með fundarsamþykkt, að undarskyldum meðlimum annarra ungmennafélaga. Allir gestir hafa málfrelsi og tillögurétt á félagsfundum.

16. grein.

Allar tillögur séu skriflegar og bornar og lesnir upp af fundarstjóra. Breytingartillögur ganga fyrir aðaltillögu. Annars ber að taka tillögur eftir röð.

17. grein.

Skuldir sem stjórn félagsins telur óinnheimtanlegar má ekki gefa upp nema með samþykki aðalfundar.

18. grein.

Brot á lögum þessum varða áminningu eða brottrekstur úr félaginu eftir atkvæðum stjórnar.

19. grein.

Með lögum þessum eru hin eldri lög og fundarsköp UMFR úr gildi numin.

20. grein.

Lög þessi öðlast gildi með samþykki lögmæts aðalfundar og undirskrift félagsmanna. Þeim má ekki breyta nema á aðalfundi.